Wednesday, May 30, 2007

Nýr dagur nýtt ljóð - eða hvað

ljóðið skrifaðist
af sjálfu sér
orðin
röðuðu sér niður
oft í skrýtinni
röð
sum orð aftast
önnur fremst
einhver þar
á milli
sum orð í hópum
önnur ein og sér
en þau voru
þarna
merkingin stundum
lítil
sem engin
bara orð
sem stóðu
saman
eða í sundur

Tuesday, May 29, 2007

Heimili ljóðanna

ljóðin mín
gömul
og ný
öll saman

ljóðin mín
saman
í hnapp
það er gott

ljóðin mín
njóta sín
öll á einum stað
það er mjög gott

Monday, May 28, 2007

Heilræði í bland við bull

Glaðlega geislarnir dönsuðu saman
gullinbrúnir og heitir.
Að horfa á var virkilega gaman
vorið yl í kroppinn veitir.

Nú birtir meira dag frá degi
dimman er varla til.
Takið eftir því sem ég segi
svo allt fari eins og ég vil.

Alltaf er gott að meta lífið
og brosa oft og mikið.
Munnvikin allir upp hífið
ekki frá neinu vikið.

Verum jákvæð verum kát
verum mikið saman.
Setjum lífið í mót og mát
meira þó að framan.

Þetta er orðið hið mesta bull
og best er því að hætta núna.
Ekki er ég neitt að ráði full
ætla að leika fullkomnu frúna.

24. maí 2007

þankagangur

hugsanir á fleygiferð
eins og heimurinn
í kring
hvernig er hægt
að hægja
á þessu öllu?
hugsanir í óreiðu
eins og umhverfið
í kringum mig
hvernig er best
að taka til
í þessu?
hugsanir og minningar
hönd í hönd
til að ylja sér við
í góðu tómi
það kann ég


15. maí 2007

orðapokinn

ég
fór á
orðaveiðar
en þau svifu í burtu
var með tóman poka
til að tína þau ofan í
eftir margar tilraunir
var pokinn galtómur

4. maí 2007

Nokkrar sumarvorsstökur

Þó að rigni stríðum straumi
stingur birtan sér í gegn.
Þetta er eins og í dúndur draumi
dæmalaust góð fregn.

Dagur lengist meir og meir
mikið er það flott.
Bleytan breytir mold í leir
bráðum verður gott.

Sumarið er handan við hornið
hækkar sólin daglega.
Ekki svo slæmt fyrir íslenska kornið
sem ég nota "glaðlega".

13. apríl 2007

Nafnlaus vísa

Það skein eitt ljós mjög skært í gær
svo magnað að ég vildi nær.
Ég augum lokaði og hugsaði hljótt,
hlutirnir þeir breyttust fljótt.

6. apríl 2007

Afmælisstaka

Rifa augun reif og kát
raula lítinn brag.
Á mig kemur ekkert fát
ég er þrjátíuogníu í dag.

17. mars 2007

- Orðabullumbull -

Vindurinn strauk mér svo blítt um kinn
sveifluðust lokkar í allar áttir.
Ég verð þó að bíða enn um sinn
að opnaðar verði allar gáttir.
Glaðlegar hugsanir huga minn fylla
hætt get ég ekki að brosa.
Rétt er sér stundarkorn aðeins að tylla
samt ekki´ á blautan mosa.
Hvað er í gangi, ég bara spyr?
Tíminn hann þýtur hratt.
Niður ég sest og borða mitt skyr
samt var ekkert svo bratt.
Tímabært er þessu rugli að rjúfa
rangla tímanum mót.
Hlusta kannski á lagið ljúfa
láta sig dreyma um bót.

5. mars 2007

Nafnlausar stökur

Dagur var risinn úr rekkju
rigning úti og grátt.
Veruleikinn varð að tímaskekkju
var ég þó sátt.

Ég dreif mig í leppana lúin
langaði aftur í rúmið.
En skylduverkin ei voru búin
enda langt í kvöldhúmið.

Í spegilinn leit, blikkaði´og brosti
burstaði tennurnar vel.
Samt var ég enn í draumalosti
og nýlega komin frá hel.

Martröðin var enn svo lifandi´ og ljót
langaði henni strax að gleyma.
Það myndi ei duga að hlaupa við fót
því minningin fylgir um alla geima.

28. jan. 2007

stríðnispúkar

þau haga sér undarlega
orðin
þeysast um víðan völl
vilja ekki láta
ná sér
nokkur orð raða sér
upp og vilja
láta nota sig
skipulega
hvað gerir maður ef maður hefur
meiri þörf fyrir stríðnispúkana?

26. jan. 2007

vetur

snjórinn sáldrast niður
eins og hveiti
bara kaldari
og blautari


12. jan. 2007

Í upphafi árs

árið er ungt
nýtt
notum það
skynsamlega
miðlum brosi
og
gæsku

látum ekki
hraðann hafa
áhrif á okkur
allt hefur sinn
tíma
og
takmörk

eyðum tíma
með þeim sem
standa okkur næst
bæði ástvinum
og
vinum

en umfram allt
Farið
vel
með
ykkur

5. jan. 2007

Afmælisstaka

Til hamingju Óli með tugina sex
tókst að ná áfanga stórum.
Vonum þú náir næstu sex
nú allavega fjórum.

3. des. 2006

Nafnlaust ljóð

ég sit alveg kyrr
og hugsa eitthvað
skemmtilegt

bleikur himinn yfir mér
svo flottur
en svo annarlegur

um hugann vafra
góðar minningar
og ég brosi út í annað

veröldin er á yfirsnúning
en ég held mig vel
fyrir utan

það er ekki við hæfi
að vera stressaður
á svona bleikum degi

24. nóv. 2006

óljóst efni

óljós hugmynd
að bæra á sér
í kollinum

djúpt í hugsununum
leynist ein
vandlega falin

og ég hugsa
var það eitthvað
sem ég ætlaði
að muna
eða gera?

15. nóv. 2006

slökun

í bollanum kaffi
sterkt og gott
við höndina góð bók
ef hugurinn ranglar
eitthvað burt
má alltaf grípa
í sauma
eða dagleg verk

á göngu er gott að slaka á
grufla, pæla, hugsa
eða loka fyrir
orðstöðvarnar
skyldi það annars vera hægt?

í heitu froðubaði
er gott að hvíla sig
láta hugann hverfa
frá daglegu amstri

eina regla er
að flýta sér mjög, mjög hægt

12. okt. 2006

spuni

stundum horfi ég
upp í skýin
og ímynda mér
að ég liggi þar
líði um í loftinu
með lokuð augun
og láti mig dreyma
þegar ég opna
augun og ætla að
kíkja niður
blasir eitthvað óvænt
við mér

stundum horfi ég
út á sjóinn
og ímynda mér
að ég liggi í
bátkænu
og öldurnar
vagga mér mjúklega
ég hef augun lokuð
og læt mig dreyma
þegar ég opna augun
til að horfa á sjóinn
er allt svo kunnuglegt
í kringum mig

stundum horfi ég
yfir túnið
og ímynda mér
að ég liggi í grasinu
horfi upp í himininn
og búi til sögur úr
skýjunum
lokuð augun opnast
og ég sé að ég er
heima hjá mér

3. okt. 2006

Nafnlaust ljóð

þau vilja ekki
láta nota sig
fela sig
fyrir mér
orðin
það var eitthvað
sem ég ætlaði
að segja
það verður
að bíða
þangað til mun
ég hugsa
lesa sauma
eða
eitthvað

24. ág. 2006

hugsað upphátt

orðin fjörleg fylla kollinn
finna sína leið
þankagangur tekur tollinn
tel ég vera sneið
óróleg eða róleg regla
ruglingslegt á köflum
Loksins búið náttborð að negla
núna dóti stöflum

1. ág. 2006

Nafnlaust ljóð

svo hljótt og skrýtið
ein með sjálfri mér
og verkefnum
sem bíða þolinmóð
eftir að ég takist
á við þau
og hafi betur

svo mjótt og lítið
bilið milli anna
og rólegheita
sumt er óháð
tíma og rúmi
sumt er mitt á milli
ég skal hafa betur

28. júní 2006

- Eitthvað út í loftið -

þörfin fyrir að tjá sig
er til staðar

samt finnst mér
eins og
ég hafi ekkert
að segja

25. mars 2006

Morgunstund

ég faðma
sjálfa mig
loka
augunum
og
hugsa knús
til allra

11. febr. 2006

jól

stjarnan
á toppi trésins
vísar okkur veginn
ljós og kúlur tindra skært
og í hjörtum okkar finnum við friðinn
sem er
bestur

14. des. 2005

Nafnlausar stökur

Ljúfur morgunn líst mér á
langar til að kúra.
Samt ég ætla kaffi' að fá
og drífa mig að skúra.

Margar bækur bíða eftir
betri athygli að fá.
Stuttur tíminn heftir, heftir
honum ekki má lá.

Í mér einhver blundar þrá
ég verð að kryfja málið.
Öðruvísi mér áður brá
úúú, stórt er orðið bálið.


20. nóv. 2005

Nafnlaust ljóð

bjart ljósið
allt í kring
gefur mér kraft
til að brosa
og knúsa allan heiminn

29. okt. 2005

geislandi gleði

það sást
langar leiðir
hvað hún var
ánægð með lífið

brosið
náði út að
eyrum

hárlokkarnir
dönsuðu glaðlega
kringum langleitt
andlit hennar

hreyfingarnar
voru kvikar

það geislaði
svo sannarlega
af henni

13. okt. 2005

Dagaskriður

Æða áfram á fullri ferð
dagarnir
breytast í vikur
mánuði...
og bráðum koma jólin

13. sept. 2005

Brot minninganna

Brot minninganna
ég tíni þau upp
eitt af öðru
öll brotin
sum glitrandi fögur
önnur kámug
eða
nær gleymd
og
ég spyr sjálfa mig:
á ég að geyma þau lengur?

31. ág. 2005

Nafnlausar stökur

Gott er að leika lausum hala
láta ekki´ stressið fá völdin.
Ekki er gott að leggjast í dvala
en hvíla sig vel á kvöldin.

Stundum þarf verkin að vinna
vaska upp, þrífa og meira.
En börnum verður og vel að sinna
vinum og hvað þá fleira.

8. ág. 2005

Gleði

Í hjartanu ólgandi gleði
kitlandi tilfinningin
framleiðir breitt bros
á vörum

15. júlí 2005

Samið fyrir Sigfús og Ásdísi

Játast munu hvort öðru í dag
Ásdís og hann Sigfús.
Okkurs finnst því það í hag
þeim að fylgja í kirkjuhús.

Vinir þau verði, sambandið treysti
vaktina standa saman.
Þeirra bíði langt líf og hreysti
leikur og meira gaman.

Hlúið að ástinni alla tíð
og ræktið hvort annað.
Leggið ei í skotgröf og stríð
slíkt er alveg bannað.

12. júlí 2005 (sett inn á aðalblogg þennan dag)

Bara smá

Stundum er ágætt að staldra við
stöfunum raða í orð.
Skoða betur skondna hlið
skötuna leggja á borð.

Það er föstudagur og fús ég vil
faðma minn eiginmann.
Ennþá þó erfitt ég það ei skil
því Davíð, hvar er hann?

Hann lofar að hringja og segja til
hafi klukkan slegið sex.
En nú er hún sjö eða hér um bil
hér verður kannski smá pex.

1. júlí 2005

Nafnlaus vísa (v/ dagbókar á aðalbloggi)

Núna var hún nokkuð klók
nýtið ykkur það vel.
Skrifið gott fólk í gestabók
gaman það ég tel.

29. júní 2005

Út og suður

Það er gaman að lifa og leika sér
leggjast í grasið og blunda.
Stundum gæti ég hugsað hér
hrifin af stað ég skunda.

Ég er í stuði, sjáið þið til
senn mun ég leggja á fjöll.
Hitta alla ættina hér um bil
heima við æsku-höll.

Gott verður góðan hóp að sjá
gefa sér góðan tíma.
Spjalla við alla, í ungviðið kjá
ég slekk á mínum síma.

Í andanum er ég komin af stað
yfir fjallið og austur í sveit.
Og nú mun ég segja ykkur það
að þarna ég barnsskónum sleit.

26. júní 2005

Nafnlaus vísa

Skáldið orti skundandi
skeggræddi og bað.
Vísur botnaði blundandi
bætir geðið það.

10. júní 2005

- Í bananastuði -

Hissa varð hún gamla konan
hætti strax að tala.
Þarna var þá litla læðan
lá í fleti og var að mala.

Yfir fjöllin feikna há
flýgur hópur fugla.
Gaman væri þeim að ná
hvað er ég að rugla?

Fínn er maður á flottum bíl
ferðast hér og þar.
Um þetta ég skrifaði stíl
sem af öllum bar.

Vitleysan vellur upp úr mér
vitaskuld er gaman.
Það veit sá sem allt hér sér
að ég er rauð í framan.

Hvernig væri´ að hætta þessu
horfum þó ei til baka.
Áður en allt fer í klessu
ég syng bí bí og blaka...

8. júní 2005

tíminn

það er alltaf til tími
til að njóta lífsins
tími til að brosa
til samferðafólksins

oft er tíminn mér að stríða
hleypur frá mér
hlægjandi

stundun sný ég tímann á
sigli mína leið
gef mér tíma til að
njóta
brosa
hugsa
og allt
-sem mig langar til

reynum ekki að elta tímann
og förum okkar leiðir
það er "kúl"

31. maí 2005

Í landi minninganna

Gott er að minnast góðra stunda
gaman að rifa upp í hljóðu tómi.
Ég hlakka einnig til næstu funda
í suma er langt að mínum dómi.

Amma mín var mér alltaf svo kær
minningar eru í hugskoti mínu.
Hugur hennar var ungur og tær
hún fylgdi hugsjónum sínu-
m.

26. maí 2005

Nafnlaust lstaka ein og hálf

Gott er að skrifa hugsanir sínar
skoða þær fram og til baka.
Þær eru margar flugurnar mínar
af mörgu er að taka.

Þokkalegir þankar mínir
þeir eru út og suður.

(vill einhver botna ;) )???

25. maí 2005

Út í bláinn

ég held að höfuðið
sé tengt við líkamann
ég heyri í hugsununum
en skil ekkert í þeim

ég held að hendur mínar
séu á réttum stað á búknum
ég sé fingurnar hreyfast
en skil ekki hvað þeir eru að gera

ég held af fæturnar
tengist rétt við búkinn
ég sé þær ekki hreyfast
og skil ekki afhverju

þetta er allt út í bláinn
engin tengsl
og lítið samhengi
þetta bara er
svona

22. maí 2005

- Gömlu skórnir -

Gamlir, slitnir, snjáðir
þreyttir og þjáðir
gömlu skórnir

götóttir og lekir
úr sér gengnir
gömlu skórnir

þeir þjónuðu mér
og pössuðu vel
gömlu skórnir

nú þarf ég að viðurkenna
fyrir sjálfri mér
að þeirra tími
er liðinn
minna gömlu skóa

tími bara ekki að fleygja þeim
veit þó að ekki er hægt að
lappa upp á þá
mína gömlu skó

blessuð sé minning
minna gömlu skóa.

9. maí 2005

sumarkoma

ég sá sumarið
koma á móti mér
ég gekk inn í
útbreiddan faðm
og við knúsuðumst

þegar ég leit til baka
sá ég vorið
veifa glaðlega
eins og það vildi segja
"ég kem aftur seinna"

25. apríl 2005

- Margt er hugsað á arkinu -

Hugurinn skreið út í skotið
skamma stund dvaldi þar.
Þótti ekki þægilegt potið
og þáði með mér far.
(á næsta bar)

Hugurinn flaug yfir fjallið
fús ég elti hann.
Viss um að þaðan kom kallið
kannski ég heimsæki mann.
(og annan)

22. apríl 2005

Þankar

Þankarnir snúast hring eftir hring
hingað og þangað skjótast.
Mennirnir rífast þing eftir þing
því í öllu er verið að rótast.

Mikið er annars um heilabrot
og ekki svo létt að "laga".
Afgreiðum sumar út í skot
slíkt mun engan plaga.

Á arkinu hugsa ég mikið og margt
magnað hvað kemst að.
Aldrei verður frá öllu sagt
of mikið yrði það.

Suma hluti skal hugsa um
halda sér við efnið.
Aðra verður að ræða um
og frá vandræðum stefnið.

19. apríl 2005

Herra Atli

Ég ætlaði mér að drífa af
öll hús- og skylduverk.
Gleymdi nú samt að þurrka af
en var bara í andanum sterk.

Bækurnar mikinn tíma taka
tæla mig oft til sín.
Sumum finnst ég ætti að baka
en er það ekki ákvörðun mín?

Betri er bók en kaka!

4. apríl 2005

orðaleikurinn

þau skjótast um í kollinum
vilja að hugsað sé um þau
biða um að þau séu rituð niður
orðin
mörg skemmtilega glettin

þau gera sér að leik
að setja allt á annan endann
og hlægja svo að öllu saman
orðin
sum einfaldlega stríðin

þau geta hrúgast saman
stundum dreifist úr þeim
og ekki er hægt að henda reiður á þeim
orðin
algerlega nauðsynleg

31. mars 2005

Nafnlaust ljóð

Grunurinn læddist framhjá
straukst við mig
en stoppaði ekki

hvert er hann að fara?

Ég elti með hálfum huga
óljósan skugga
næstum ósýnilegan

hvert var hann að fara?

Allt í einu var hann horfinn
hafði leysts upp
og orðið gegnsær

hvert fór hann?

Eiginlega langaði mig
ekki að vita það
samt var ég forvitin

24. mars 2005

Stökur

Vinnuvikan hálfnuð er
var þó rétt að byrja.
Allir vita hvernig fer
óþarfi að spyrja

Ótrúlegt hvað tíminn tifar
tilgangslaust að elta.
Það veit sú er þetta skrifar
samt að reyna að melta.

Stundum er betra að bíða
biðja ekki um neitt.
Einhvern tíma láta líða
loksins komast í feitt.

Lengist dagur dálítið
dugar fyrir vorið.
Ekki er það skrýtið
að fá úr því skorið.

Aftur er ég byrjuð að bulla
barnalegt en gaman.
Ættum frekar samt að sulla
syngjandi og saman...

9. mars 2005

litagleði

í draumnum var það eðlilegt
að brún sólin risi
úr suðri upp á
fjólubláan himininn

fólkið gekk út á hlið
og allir heilsuðust
brosandi

appelsínugult hafið
lék sér við bleika ströndina
grasið var dimmblátt

þegar kvöldaði
settist sólin
í austri
fólk gekk afturábak
inn í húsin sín
og kallaði
"góða nótt!"

4. mars 2005

- Andríki -

Núna kom andinn yfir mig
og það ætla ég að nýta.
Ætli það muni borga sig
sýnum draumum að flýta?

Föstudagur enn á ný
og tíminn flýtir sér
Á himni eru engin ský
ég er að dunda mér.

Hvað skyldi vera tveir og tveir
tuttuguogtveir eða fjórir?
Hugsa ég alltaf meir og meir
mínir þankar eru stórir.

Núna er ég farin að bulla og bulla
ballið er rétt að byrja.
Kannski er betra að sulla og sulla
hvern á ég að spyrja?

Á arkinu hugurinn vinnur mikið
ég rífst oft við sjálfa mig.
Hvernig væri fyrir vikið
virkilega að hlusta á sig?

Ja hérna hugsa ég núna
halelúja eða hvað.
Tel mig vera alveg búna
og mun færast úr stað.


25. febr. 2005

orðaréttin

mig dreymdi
að ég mætti fullt af orðum
þau voru þarna í flokkum

ég ákvað
að reka þau í almenninginn
og flokka þau

þetta voru alls konar orð
af öllum stærðum
og gerðum

það mátti skipta þeim niður
á marga staði
fyrir orð sem aldrei á að nota
fyrir orð sem bara skal hugsa
fyrir orð til að halda upp á

sum orð þyrfti að
flétta upp í orðabók
önnur ættu helst
að vera þurrkuð út
að eilífu

þetta var stórt
og viðamikið
verkefni

og þá
vaknaði ég

4. febr. 2005

orðarugl

á ganginu gott er að hugsa
grufla í sínum málum
Ekki´ er samt verið að slugsa
í slabbi og vegi hálum

gott er að brosa barnanna til
bjóða góðan daginn
þetta er það sem ég alveg vil
þykist búa í haginn

stundum er ágætt að slappa af
sitja og gera' ekki neitt
nota svo orkuna er hvíldin gaf
og þeysast vítt og breitt

í kollinum fljúga feikimörg orð
finnst mér samt komið nóg
stend upp og sest við annað borð
staflanum komið í lóg

28. jan. 2005

hugdettur

í kollinum þeytast þægileg orð
þankarnir eru margir og stórir
sum á ekki að bera á borð
betra ef þar sitja fjórir

með hægri hönd undir vinsti kinn
hún liggur svo kyrrlát og hljóð
þar mun hún sofa enn um sinn
ég syng henni fallegt ljóð

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

skýin eru í feluleik
sum sjást þó í öðrum leikjum
snú-snú, parís og eltingaleik
eitt er skilið útundan
eða kannski er það bara að hugsa
hmm, hugsa skýin

12. jan. 2005

Streymandi orð

að hugsa um ekkert er lítið mál
orðin streyma hratt úr stað
sum hafa merkingu önnur bara tál
en engin á leiðinni í bað

stundum er gott að bulla í bolla
ballið er rétt að byrja
líka má kannski dóla og drolla
drífa sig út og kyrja

hreyfi ég höfuðið upp og niður
hlýtur að þýða já
þá er það afar góður siður
að fara strax á stjá

5. jan. 2005

Andinn er yfir mér í dag

Í þögninni hlusta ég hjarta mitt á.
Hugurinn dvelur þó víða.
Best væri knúsið og kossinn að fá
kæri mig ekki að bíða.

Á arkinu þankarnir snúast um það
því lífið hagi sér svona?
Á meðan færist ég hratt úr stað
í átt til nýrra vona.

7. des. 2004

Frelsi

það er líkt og einhver
ósýnileg bönd hafi losnað
kannski slitnað

allt er svo undarlega létt
sólin brosir breiðar
og geislarnir snerta hjarta mitt

nú hef ég enn meira að gefa
er tilbúnari að þyggja
framundan eru gleðidagar

mér finnst þetta skrýtið
og hugsa oft um það
en þetta er bara svona

7. des. 2004

- Svona er lífið -

Til eru þeir sem alltaf kvarta
hvernig sem stendur á
svo eru þeir sem lítið
láta uppi hvað þeim finnst

Til eru þeir sem allt sjá jákvætt
þótt oft sé erfitt um vik
svo eru þeir sem þurfa
mikið að tala um ALLT

Hjá sumum er tíminn lengi að líða
leiðist þeim sí og æ
aðrir eru ekkert að bíða
og skjótast um borg og bæ

Einhverjir halda að lífið sé hnútur
hugsa um hvort hann leysist
svo eru aðrir sem láta ekki
áhyggjurnar spilla svefni sínum

Sitt sýnist hverjum
enginn hugsar eins
SEM BETUR FER
brosum og verum glöð

5. nóv. 2004

- Hringrás -

nýr dagur risinn,
bankar upp á og
býður góðan dag
"notaðu mig nú vel!"

skyldum sinnt af kappi
inn á milli borðað
spjallað, dreypt á
te eða kaffi

það líður fram á dag
komið heim
gengið í daglegu störfin
þvottur, matur, tiltekt

smám saman slokknar
á deginum og ró
færist yfir allt og alla
nóttin breiðir úr sér

hverf inn í draumalandið
vitandi það að það
styttist í nýjan dag.

4. nóv. 2004

- Skammdegi -

Birtan hverfur smátt og smátt
svart myrkrið tekur völdin.
Það má ekki að hafa hátt
í húminu á kvöldin.

11. okt. 2004

- Hugsanir -

Það leita á mig mögnuð orð
mun ég nota þau?
Ætti ég að leggja á borð
eða strauja tau?

Mér finnst ég standa ein og sér
en það eru bönd.
Hver mun standa þétt hjá mér
og halda í mína hönd?

Ekkert bætir vol né víl
verð að hressa lund.
Geri með mér góðan "díl"
mögnuð er sú stund.

Stundum best að brosa er
bætir það oft geð.
Skugginn minn á brott nú fer
ég er bara peð.

30. sept. 2004

-Eitthvað út í loftið -

Dagarnir styttast og senn koma jól
svona hratt líður tíminn.
Ég ætti því brátt að klæðast kjól
kallar þá ekki síminn.

Regnið úr loftinu streymir strítt
strætin eru blaut.
Varla er það nokkuð nýtt
núna heyrist flaut.

Brátt mun aftur birta til
bætir margra geð.
Ég veit alveg hvað ég vil
og leyfi ykkur með.

29. sept. 2004

Morgunstund og rólegheit

rjúkandi nýtt kaffi
fingurnir á lyklaborðinu
hugurinn á fleygiferð

hugsa um það sem er búið
og það sem er framundan
staldra við núið

að vera til og njóta þess
ekki kasta sér í hringiðuna
eða vera síhugsandi til baka

fanga augnablikið
brosa og segja:
"Þetta verður góður dagur!"

12. sept. 2004

Strákarnir voru á fótboltamóti á Akranesi

Strákarnir eru á Skaganum
skemmta sér með knött.
Hnúturinn í maganum
hann er út í hött...?

Ort 10. júlí 2004

- Orð -

Ég loka augunum
og sé orðin svífa
allt í kring

sum eins og svartar klessur
orð sem aldrei hefðu átt
að vera sögð

önnur björt og skínandi
hrós, fallegar kveðjur
og ástarorð

enn önnur grá og óljós
sem kannski verða
svarta klessur
eða skínandi björt
í framtíðinni

Síðan ca 3. júní 2004

Seinni partana á ég

Þetta var ort í maí 2003. Fyrri partana á Baldur Pálsson en seinni partarnir eru mínir.:

Björn er okkar besta vörn
gegn brennivíni og sukki.
Nú í búðum tökum törn
taktfst, hreint með bukki.

Hulda er mesta happafljóð
og heimsins mesta skvísa.
Hana vildum setja í sjóð
söfnun dúkku-lísa.

Alla hefur allt ég tel
altinn þó ei syngur,
Stundum hana líka vel
að telja mína fingur.

Anna Sigga eins og sól
í sumarblíðu ljómar.
Brosir blítt ef fær hún hól
betur þá hún hljómar.

Dísella er dásamleg
dísæt eins og sykur.
Dísella er yndisleg
og ekki vatna-nykur.

Baldur er í bassarödd
með bumbu í sínu fangi.
Værum öll í vanda stödd
vildi hann lifa á þangi.

Í bassanum hann Bjarni sat
en breyttist svo í gelding,
Finnbjörn reyndi allt hvað gat
en hvarf svo eins og elding.

Bryndís fór í berjamó
og baslaði við að tína.
Syngur hæ og segir hó
situr við hlið mína.

Hilmar á hinn hreina tón,
háan mjög og bjartan.
Ólöf og hann eru hjón
hanga þau á hjartan-
u

Hlíf er ung og Hlíf er rjóð
Hlíf er svoldið dreymin.
Hlíf er sæt og Hlíf er góð,
Hlíf er ekki gleymin!

Jóhanna er jákvæð mær
Jóhanna er kroppur.
Andlit sitt hún aðeins þvær
og undir rúmi koppur.

Kristinn marga kjóla á,
og klæðist þeim í leynum.
Líkjast honum líka má
líklega við reynum.

Ólöf er sko yndið mitt
einstök vændiskona.
Ágætt bara heldur en hitt
Hún er bara svona.

Sigurbjörg er sæt og fín
syngur eins og díva.
Vildi hún kæmi heim til mín
húsið mitt að þrífa.

Sveinn er bæði sýnist mér
svipfagur og ljúfur.
Er hann eitthvað skyldur þér,
einmitt líkt og stúfur?

Villa mín er vænsta sprund
vildi ég hana kyssa.
Röltum út um græna grund,
grasið bítur hryssa.

Ljóðin hennar Önnu

Hér ætla ég að safna öllum gömlum og nýjum ljóðum sem ég hef samið sl. ár saman.